Veikindi flugumferðarstjóra hafa kostað flugfélög á annan milljarð króna
Rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, Isavia, telur að aukakostnaður alþjóðlegra flugfélaga vegna yfirvinnubanns og veikinda flugumferðarstjóra sé vel á annan milljarð króna, aukakostnaðurinn er tilkominn vegna meiri brennslu eldsneytis, þar sem vélum sem ætla að fara syðst um svæðið er beint suður fyrir, inn í það skoska.
Kostnaðurinn stafar af því að vélarnar þurfa að fara óhagkvæmari flugleiðir, að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, í umfjöllum Morgunblaðsins um málið. Þegar flugumferðarstjóri í flugstjórnarmiðstöðinni veikist þarf að draga úr umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið.
Guðni segir aðgerðirnar ekki bitna mikið fjárhagslega á Isavia. „Isavia verður fyrir álitshnekki hjá alþjóðlegu flugfélögunum. Þau fá verri þjónustu.“