Eltu ökumenn uppi á hlaupum
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af í vikunni, vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna, tók á rás frá lögreglu en var á endanum hlaupinn uppi og handtekinn. Var maðurinn látinn laus úr haldi eftir sýnatökur og skýrslutöku á lögreglustöð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Þá þurfti lögregla að hlaupi uppi annan ökumann sem reyndi að stinga af. Hann var grunaður um að hafa ekið bifreið sinni í skurð og reyndi að aka henni aftur upp úr skurðinum þegar lögregla kom á vettvang. Maðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og hafði meint fíkniefni í fórum sínum. Var maðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð.
Lögregla veitti síðan þriðja ökumanninum eftirför drykklangan spöl þar sem hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Maðurinn hafði ekið á miklum hraða, meðal annars yfir hringtorg sem á vegi hans varð. Hann var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis.