Nýjast á Local Suðurnes

Framkvæmdir við Krýsuvíkurgatnamót ganga vel – Enn má búast við töfum á umferð

Mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg - Mynd: Vegagerðin

Framkvæmdir við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar við Krýsuvíkurveg ganga vel og eru á áætlun en að mestu er lokið 1. áfanga sem felst í því að færa lagnir svo mögulegt verði að byggja brúna fyrir hin mislægu vegamót annars vegar og hins vegar að opna framhjáhlaup svo vinna megi við nefnda brú.

Annar áfangi hefst með því að Reykjanesbrautin er tekin í sundur og grafið er fyrir nýrri brú. Unnið er að brúarbyggingu í beinu framhaldi. Unnið er að veg- og gatnagerð; Suðurbrautartengingu, Selhellutengingu, ásamt að- og fráreinum, hringtorgi að norðan og hluta af hringtorgi að sunnan

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að í lok þessa áfanga verði Reykjanesbrautin endurgerð yfir nýja brú með öllum frágangi svo sem lýsingu, vegriði og vegmerkingum og umferð færð af framhjáhlaupinu á brautina.

Vegna vinnu við sprengingar á framkvæmdasvæðinu þarf að stöðva umferð á Reykjanesbraut í skamman tíma, allt að þrisvar sinnum á dag. Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða merkingar við vinnusvæðið. Þá er hámarkshraði á svæðinu 50 km/klst.

Krýsuvíkurvegi hefur verið lokað tímabundið, milli Rauðhellu og hringtorgs við Hraunhellu / Hringhellu. Merkt hjáleið er um Rauðhellu og Hringhellu á meðan lokun Krýsuvíkurvegar varir.