Nýjast á Local Suðurnes

Ekki hættuleg efni sem losuð voru úr reykhreinsivirki United Silicon

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Fulltrúi Umhverfisstofnunnar segir ryk sem losað var úr reykhreinsivirki kísilmálmverksmiðju United Silicon hafa verið kísilryk og ekki vera hættulegt. Vefmiðillinn Stundin birti myndband af umræddri losun á vef sínum í gær sem vakið hefur mikla athygli, en í umfjöllun miðilsins er fullyrt að verksmiðjan hefði að undanförnu losað hættuleg eiturefni í skjóli nætur út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar og út í andrúmsloftið..

„Við fengum þær skýringar að reykhreinsivirki hafi stíflast, þeir hafi reynt að losa hana, opnað þessa túðu og þá kom út þetta ryk. Þetta er kísilryk sem er ekki eiturefni og er ekki hættulegt,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri eftirlitsteymis hjá Umhverfisstofnun, um myndskeið innan úr kísilmálmverksmiðju United Silicon sem birtist á vef Stundarinnar í gær.

Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar kemur einnig fram að Umhverfisstofnun fylgist mjög vel með í Helguvík og sé með verksmiðju United Silicon í hálfgerðri gjörgæslu.

Sigríður segir að Umhverfisstofnun sé með verksmiðjuna í hálfgerðri gjörgæslu – stofnunin hafi farið í reglulegar eftirlitsferðir því það séu fleiri atriði sem þurfi að fylgja eftir, til að mynda úrbótaráætlun sem verksmiðjunni hafi verið gert að fara eftir.  „Við vorum á leiðinni í eftirlitsferð og þetta myndskeið flýtir þeirri ferð aðeins,“ segir Sigríður.