Þarf að mæta reglulega á lögreglustöð eftir að hafa framvísað fölsuðu skírteini
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið sex ökumenn sem grunaðir voru um vímuefnaakstur.
Einn þeirra, tæplega fimmtugur karlmaður, ók á ljósastaur og velti bifreið sinni. Hann hljóp síðan af vettvangi en lögregla fann hann fljótlega. Hann var grunaður um fíkniefnaakstur, vörslur fíkniefna, auk þess sem hann ók sviptur ökurétti ævilangt. Í fórum hans fannst meint þýfi.
Annar ökumaður, erlendur karlmaður, framvísaði grunnfölsuðu ökuskírteini þegar lögregla hafði afskipti af honum. Honum er gert að gangast undir reglubundna tilkynningaskyldu á lögreglustöð næstu átta vikurnar .
Auk þessa voru fáeinir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og tveir til viðbótar óku á negldum hjólbörðum. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af átta óskoðuðum eða ótryggðum bifreiðum.