Nýjast á Local Suðurnes

Fá Suðurnesjafyrirtæki á meðal 850 fyrirmyndarfyrirtækja

Mynd: Skjáskot/vb.is

Aðeins 30 fyrirtæki af Suðurnesjum komust á lista Viðskiptablaðsins og Keldunar yfir fyrirmyndarfyrirtæki á Íslandi. 850 fyrirtæki komust á listann sem birtur var í dag.

Bláa Lónið skorar hæst af Suðurnesjafyrirtækjum á listanum, en fyrirtækið er í 12. sætinu. Auk Bláa lónsins náðu þrjú fyrirtæki af Suðurnesjum inn á topp 100, en það eru HS Veitur sem eru í 50. sæti, Blue Carrental sem er í 73. sæti og Samkaup sem er í 96. sæti listans.

Til þess að komast á listann þurfa fyrirtæki að hafa skilað ársreikningi og uppfylla ströng skilyrði. Fyrirtækin þurfa að hafa skilað jákvæðri afkomu á rekstrarárinu. Tekjur þurfa að hafa verið umfram 30 milljónir króna, eignir yfir 80 milljónum og eiginfjárhlutfallið þarf að hafa verið yfir 20%. Auk þessa er tekið tillit til annarra þátta, sem metnir eru af Viðskiptablaðinu og Keldunni.