Nýjast á Local Suðurnes

Grunur kviknaði um hagræðingu úrslita í leik hjá Grindavík

Grunsemdir hafa vaknað um að leikmenn hafi veðjað á úrslit eigin knattspyrnuleikja hér á landi og að úrslitum leikja hafi mögulega verið hagrætt. Íslensk rannsókn, þar sem þátttaka knattspyrnumanna á Íslandi í peningaspilum og getraunaleikjum var könnuð, leiðir þetta í ljós, en greint er frá niðurstöðunum í Fréttablaðinu í dag.

Þrjú mál hafa í undanfarin ár vakið grunnsemdir um mögulega hagræðingu úrslita og kölluðu á frekari rannsókn hjá Knattspyrnusambandi Íslands, eitt þessara mála tengist leik sem Grindavík lék í efstu deild árið 2008 gegn HK, en KSÍ barst ábending tveimur dögum fyrir leikinn um að leikmaður HK hafi haft samband við leikmann Grindavíkur með það í huga að hagræða úrslitum leiksins.

Leikmennirnir voru ekki nafngreindir á sínum tíma, en voru báðir erlendir, leikmaður Grindavíkur hafði samband við stjórnarmenn Kd. Grindavíkur sem gerðu KSÍ viðvart og í kjölfarið hafði KSÍ samband við forystumenn HK.

Rannsókn málsins, sem unnin var í samvinnu við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, leiddi í ljós að leikmennirnir hefðu haft einhver samskipti en ekki var hægt að sýna fram á að þau væru saknæm. Leikurinn sem um ræðir fór fram á Kópavogsvelli og endaði hann 2-0 fyrir Grindavík.

„Það er mat KSÍ að viðbrögð forystumanna viðkomandi félaga hafi komið í veg fyrir að nokkuð óeðlilegt gerðist ef slíkt var í raun ætlunin,” sagði í yfirlýsingu KSÍ frá þeim tíma.