Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík borgar best

Keflavík virðist borga leikmönnum sínum bestu launin af Suðurnesjaliðunum þremur í úrvalsdeildinni í körfuknattleik, ef eitthvað er að marka greiningu á launum körfuknattleiksmanna, sem unnin var af ráðgjafanum Jose Colorado, sem sérhæfir sig í málefnum leikmanna sem vilja spreyta sig í atvinnumennsku.

Úrtakið var þó lítið samkvæmt frétt á vefnum karfan.is, en einungis var rætt við 17 leikmenn í öllum deildum. Launin í efstu deild segir hann vera á bilinu 426 þúsund krónur á mánuði til 852 þúsund krónur á mánuði. Hann tekur einnig fram að ýmis fríðindi fylgi því að spila hér á landi, en meðal annars sjá liðin sumum leikmönnum fyrir húsnæði, sjá fyrir samgöngum og mat auk þess að greiða flugfargjöld.

Í greiningunni kemur fram hvaða lið það eru sem leikmenn segi að borgi best, en í þeim flokki eru þrjú félög nefnd á nafn, Tindastóll, Keflavík og Valur.