Nýjast á Local Suðurnes

Lögreglan á Suðurnesjum hleraði einna mest á síðasta ári

Lögregluembættin á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu beittu símahlerunum 322 sinnum á árinu 2018. Öll önnur lögregluembætti landsins beittu símahlerunum í 40 skipti á sama tímabili. Um var að ræða töluvert fleiri hleranir en árið 2017 þegar 256 sinnum var gripið til símahlustunar eða skyldra úrræða á landinu öllu.

Þetta kemur fram í skýrslu ríkissaksóknara um eftirlit með símahlustun og skyldum úrræðum árið 2018 og fjallað er um í Morgunblaðinu. Þar kemur einnig fram að úrskurðir sem lutu að símahlustun á landinu öllu voru 53 árið 2018. Auk þeirra lutu 30 úrskurðir að svokölluðum eftirfarabúnaði, 65 að útskrift á gagnanotkun farsíma, 132 að útskrift á notkun, 29 að upplýsingum um rétthafa, einn að tölvusamskiptum, fimm að myndavélaeftirliti, átt að hlustunarbúnaði og 39 að svokallaðri IMEI-leit.