Nýjast á Local Suðurnes

Hælisleitendur dæmdir til fangelsisvistar

Nokkrir hælisleitendur hafa undanfarið verið dæmdir til 30 daga fangelsisvistar hér á landi. Öll málin tengjast fölsuðum eða stolnum ferðapappírum sem reynt var að nota til þess að komast til landsins í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Allir aðilarnir voru sem fyrr segir stöðvaðir við komuna til landsins og í flestum tilfellum var um að ræða aðila sem voru að millilenda hér á leið sinni frá Svíþjóð eða Noregi til Kanada þar sem til stóð að sækja um hæli. Allir áttu hælisleitendurnir það sameiginlegt að hafa dvalið til lengri eða skemmri tíma í Svíþjóð eða Noregi þar sem umsóknum þeirra um hæli hafði verið hafnað eða landvistarleyfi þeirra runnið út.

Allir sóttu um hæli hér á landi eftir að hafa verið stöðvaðir af lögreglu eða tollvörðum í flugstöðinni. Öllum umsóknunum var hafnað og í kjölfarið fóru málin í ferli fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Auk fangelsisvistar voru allir hælisleitendurnir dæmdir til að greiða kostnað við rannsókn málanna auk kostnaðar við skipaða verjendur.