Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarfulltrúar vilja að egypska fjölskyldan fái að vera áfram á landinu

Fimm bæjarfulltrúar Samfylkingar og Beinnar leiðar skora á stjórnvöld að beita sér fyrir því að egypsk fjölskylda, sem vísað hefur verið úr landi, fái að vera hér á landi áfram. Fimmmenningarnir lögðu fram bókun þess efnis á bæjarstjórnarfundi í gær. Bókunin í heild sinni er hér fyrir neðan.

Nú liggur fyrir úrskurður um að vísa 6 manna egypskri fjölskyldu, sem búsett hefur verið í okkar bæjarfélagi um tveggja ára skeið, úr landi. Á þessum tíma hafa börnin aðlagað sig að íslensku samfélagi og hafa stundað nám í Háleitisskóla á Ásbrú.

Við viljum með þessari bókun taka undir með skólastjóra Háleitisskóla, þegar hann heldur því fram að aðgerðir yfirvalda brjóti á grundvallarmannréttindum barnanna og að þau eigi að fá að vera áfram á Íslandi og ganga hér í skóla.

Við erum sem sveitarfélag að vinna að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem stendur mjög skýrt að „öll börn skulu njóta réttinda sáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.“
Í sama sáttmála stendur einnig „það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Reykjanesbær hefur sett sér það markmið að vera fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum skóla-, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf.
Í krafti fjölbreytileikans eru orðin sem skilgreina vel fyrir hvað við viljum standa sem sveitarfélag og þar eru allir velkomnir.
Við viljum því skora á stjórnvöld, dómsmálaráðherra sem og barnamálaráðherra og alla þá sem að málinu koma að beita sér fyrir því að umrædda fjölskylda fái að vera hér áfram.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Styrmir Gauti Fjeldsted (S) og Jasmina Vajzovic Crnac (Á)