Nýjast á Local Suðurnes

Björgunarsveitir og þyrla kölluð út vegna neyðarblysa – Leitað frá Garðskaga að Höfnum

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir voru kallaðar út fyrr í kvöld eftir að tvær neyðarsólir sáust á lofti nærri Höfnum á Suðurnesjum. Lögreglu barst tilkynning um sólirnar á níunda tímanum.

Sá sem tilkynnti var staddur á Grænásbraut í Reykjanesbæ. Hann sagði sólirnar á suðvesturhimninum en taldi þær líklega nær sér en Höfnum. Ákveðið var að kalla út TF-LÍF og björgunarsveitir til að kanna málið betur og sannreyna hvort um raunverulegt neyðarkall væri að ræða. Þyrlan fór í loftið klukkan hálftíu. Eftir nokkra leit á svæðinu frá Garðskaga að Reykjanestá þótti ljóst að blysunum hefði verið ekki verið skotið upp út af Höfnum heldur benti allt til að þeim hefði verið skotið af landi.

TF-LÍF lenti aftur í Reykjavík klukkustund síðar. Landhelgisgæslan og aðrir viðbragðsaðilar taka allar tilkynningar um neyðarblys á lofti mjög alvarlega enda eru þau eitt mikilvægasta úrræði sjófarenda og annarra til að kalla eftir aðstoð í neyð. Af þessu tilefni skal enn brýnt fyrir fólki að skjóta ekki upp flugeldum, nú þegar jólahátíðinni er lokið. Öll notkun flugelda er bönnuð eftir 6. janúar, meðal annars til að koma í veg fyrir atvik eins og í kvöld.