Nýjast á Local Suðurnes

Bláa lónið skilar gríðarlegum hagnaði – Ekkert pláss fyrir frumkvöðlana í sögunni

Mynd: Bláa lónið

Rekstur fjölsóttasta ferðamannastaðar landsins, Bláa lónsins gekk vel á síðasta ári, en hagnaður fyrirtækisins eft­ir skatta nam um 2,6 millj­örðum ís­lenskra króna. Eigendum félagsins var í kjölfarið greiddur út 1,5 milljarða króna arður, en stór hluti þess fjárs rennur til félaga í eigu forstjórans Gríms Sæmundsen. Ævintýralegur vöxtur fyrirtækisins hefur því komið vel við pyngju forstjórans, en laun hans og stjórnar þess eru í hærri kantinum, rétt tæpar 100 milljonir króna á ári samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2015.

Saga Bláa lónsins er athyglisverð, en henni eru þó lítil skil gerð á heimasíðu fyrirtækisins, að minnsta kosti þeim kafla sögunnar sem gerist fyrir stofnun fyrirtækisins sem nú rekur lónið og hóf starfsemi árið 1992 undir stjórn Gríms Sæmundsen og Eðvards Júlíussonar, þáverandi bæjarfulltrúa í Grindavík og stjórnarmanns í Hitaveitu Suðurnesja. Sögu lónsins má þó rekja aftur til áttunda áratugarins, þegar lónið tók að myndast út frá starfsemi Hitaveitu Suðurnesja.

Ekkert pláss fyrir þann sem uppgötvaði lækningamáttinn í sögunni

Sem fyrr segir er lítið minnst á þann kafla í sögunni hvernig lækningamáttur lónsins uppgötvaðist og enn síður hvernig lónið endaði í höndum núverandi eigenda, en Bláa lónið ehf., er að meirihluta í eigu fyrirtækja forstjórans og viðskiptafélaga hans, auk þess sem Hitaveita Suðurnesja á um 30% hlut, þann hlut stendur þó til að selja á næstu misserum.

Valur Margeirsson – Mynd: Facebook/minningarsíða Vals Margeirssonar

Lækningamáttur Bláa lónsins á húðsjúkdómnum psoriasis uppgötvaðist fyrir hreina tilviljun þegar Valur Margeirsson, sem sjálfur glímdi við psoriasis-húðsjúkdóminn baðaði sig í lóninu fyrstur manna. Valur, sem lést fyrir rúmum tveimur árum, fór yfir söguna um tilurð Bláa lónsins í aðsendri grein í héraðsfréttablaði á Suðurnesjum fyrir nokkrum árum, en þar sagði hann meðal annars frá erfiðleikum sem fylgdu því að fá leyfi til þess að baðast í lóninu í upphafi.

„Enginn vildi hleypa mér þarna ofan í og varð ég að fá sérstakt leyfi frá þáverandi hitaveitustjóra Ingólfi Aðalsteinssyni sem í upphafi neitaði mér alfarið um þessa “fífldjörfu ævintýramennsku” eins og hann orðaði það, enda hefðu menn forðast að komast í snertingu við þennan lög. En ég gafst ekki upp og að lokum samþykkti hitaveitustjórinn að líta í hina áttina, en þetta yrði alfarið á mína eigin ábyrgð. Það var því talsverð spenna meðal starfsmanna Hitaveitunnar, þegar ég mætti í fyrsta skipti til að baða mig, enda höfðu þeir á orði að ég væri sá fyrsti sem reyndi þessa böðun,“ segir Valur í greininni.

Þrátt fyrir nokkuð ítarlega leit gat blaðamaður Suðurnes.net hvergi séð að nafn Vals kæmi fram í sögu Bláa lónsins, hvorki á heimasíðu fyrirtækisins, né í kynningarefni eða í ársskýrslum þess. Magnea Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Bláa lónsins, sagði í samtali við Suðurnes.net að sögunni væri þó gerð góð skil á heimasíðu Bláa lónsins.

“Við erum stolt af lækningamættinum og gerum honum  góð skil í sögunni. Þar sem fram kemur að einstaklingar með psoriasis hafi verið á meðal þeirra fyrstu til að baða í affallslóninu sem hafði myndast við orkuverið í Svartsengi og uppgötvað lækningamáttinn. Síðar var lækningamátturinn staðfestur með rannsóknum.” Sagði Magnea.

Valur Margeirsson starfaði aldrei fyrir Bláa lónið, né hagnaðist á nokkurn hátt á tilurð þess, en í niðurlagi greinar sinnar hafði hann orð á því að sannleikurinn um sögu þess ætti að fá að njóta sín.

„Með þessum orðum mínum er ég hvorki að státa mig af þessu né að agnúsast yfir áframhaldandi uppbyggingu við Bláa lónið fyrir psoriasis-sjúklinga, síður en svo. Mér finnst hinsvegar þegar menn á tyllidögum sem þessum eru að rifja upp tilurð Bláa lónsins þar sem verið er að eigna hinum og þessum heiðurinn af því að hafa uppgötvað þennan lækningamátt, að þá megi sannleikurinn fá að njóta sín.“

Frumkvöðlar lögðu aleiguna í kynningarstarf – Viðskiptafélagi forstjóra sat beggja vegna borðsins 

Árið 1992 ákvað stjórn Hitaveitu Suðurnesja hefur að ganga til samninga við við Grindavíkurbæ um rekstur baðhússins við Bláa lónið, en fjögur ár þar á undan hafði reksturinn verið í höndum hlutafélagsins Kleifa sf. sem var í eigu Hermanns Ragarssonar og viðskiptafélaga hans. Hermann greindi frá því viðtali við Morgunblaðið á þessum tíma að hann og meðeigandi hans hefðu lagt aleigu sína í fyrirtækið og stæðu þeir uppi eignalausir og atvinnulausir ef gengið yrði til samninga við bæjarstjórn Grindavíkur, en verulegt fé var meðal annars lagt í auglýsinga- og kynningarstarfsemi öll fjögur árin og þannig hafi mestur hluti hagnaðar fyrirtækisins runnið í uppbyggingarstarf og kynningu á lóninu innanlands og erlendis.

“Það er álit okkar að með samningi við annan aðila en okkur nú, væri verið að afhenda þeim aðila aðstöðu til að hagnast vegna þeirra fjárfestinga sem Kleifar sf. hafa lagt í á grundvelli samnings okkar. Slíkt finnst okkur afar óréttlátt og þótt okkur sé ljóst að mjög sé þrýst á Hitaveituna um að framlengja ekki samninginn við okkur þá sjáum við engin efnisleg eða fagleg rök fyrir slíku.” Sagði Hermann um það leiti sem samningar við Kleifa voru ekki endurnýjaðir og lónið afhent Grindavíkurbæ.

Á sama tíma samþykkti bæjarstjórn Grindavíkur að stofna hlutafélag með Grími Sæmundsen lækni og var þáverandi stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja og forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, Eðvard Júlíusson, aðal hvatamaðurinn að stofnun félagsins. Það má því segja að Eðvard, sem síðar varð stjórnaformaður Bláa lónsins hf. og einn helsti viðskiptafélagi Gríms Sæmundsen, núverandi forstjóra Bláa lónsins, hafi setið beggja vegna borðsins þegar samningurinn við Kleifar sf. var ekki endurnýjaður og ákveðið var að ganga til samstarf við Grím. Eðvard hefur síðan hagnast vel á þessum gjörningi.

Viðskiptafélagarnir komið víða við – Sátu í stjórnum félaga sem fengu milljarða afskrifaða

Grímur og Eðvard komu víða við í viðskiptum á árunum í kringum hrun, en fyrirtæki sem þeir höfðu aðkomu að fengu milljarða afskrifaða eftir viðskipti við Sparisjóð Keflavíkur, en þeir sátu báðir í stjórn SM 1 ehf., en eigendur þess voru meðal annars félagið Saltver ehf. sem var í eigu þáverandi stjórnarformanns Sparisjóðs Keflavíkur og voru Eðvarð og Grímur stjórnarmenn í félaginu.

Þá sátu viðskiptafélagarnir báðir í stjórn Suðurnesjamanna ehf., sem varð gjaldþrota árið 2011 og fékkst ekkert upp í milljarða kröfur á hendur þess félags. Grímur var einnig framkvæmdastjóri Suðurnesjamanna.

Þá var Grímur bankaráðsmaður í Icebank hf., sem varð gjaldþrota árið 2009.

Grímur stærstur núverandi hluthafa og Eðvard fylgir með

Stærstu hlut­haf­ar Bláa lóns­ins eru Hvatning slhf., með 39,1% hlut, HS Orka með 30% hlut, Keila ehf. með 9,2% hlut og Hofg­arðar ehf. með 4,9% hlut.

Hvatn­ing slhf. er í 50,55% eigu einka­hluta­fé­lags­ins Kólfs og 49,45% eigu Horns II slhf. Kólf­ur ehf. er í 75% eigu Gríms Sæ­mund­sen og 25% eigu Eðvards Júl­í­us­son­ar, það má því segja að Eðvard fylgi Grím eftir í fjárfestingum í Bláa lóninu og hagnist vel á gjörningnum sem fram fór á níunda áratug síðustu aldar, þegar Eðvard sat bæði í bæjarstjórn Grindavíkur og í stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Horn II slhf. er fram­taks­sjóður stofn­aður af Lands­bréf­um.