Nýjast á Local Suðurnes

Ofn USi gangsettur klukkan 16 í dag – Umhverfisstofnun og sóttvarnalæknir fylgjast með

Rekstraraðili kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík og ráðgjafar þeirra telja líklegt að óstöðugleiki verði í ofni verksmiðjunnar fyrst um sinn, eftir ræsingu, sem fyrirhuguð er klukkan 16 í dag.

Gangsetning mun fara fram með tilliti til vindátta yfir Reykjanesbæ og gerir veðurspá Veðurstofu Íslands ráð fyrir suðaustlægum  áttum þegar gangsetning fer fram. Útblástur frá verksmiðjunni ætti því ekki að berast yfir Reykjanesbæ í upphafi gangsetningar.

Umhverfisstofnun mun fylgjast vel með framgangi og aðhafast ef þarf með hagsmuni íbúa að leiðarljósi í samræmi við lög og skyldur um eftirlit með mengandi starfsemi. Haft var samráð við Sóttvarnalækni um ákvörðunina og verður áfram samstarf við embættið hvað varðar hugsanleg áhrif á heilsu íbúa.