Nýjast á Local Suðurnes

Festa: Arðsemi fjárfestingar í USi metin góð – Vonast eftir að félagið haldi áfram rekstri

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Festa lífeyrissjóður hefur ásamt öðrum fjárfestum, þar með talið öðrum lífeyrissjóðum, tekið þátt í fjármögnun verksmiðju United Silicon í Helguvík. Heildarfjárfesting Festu nemur um 0,7%  af heildareignum sjóðsins, eða 875 milljónum króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á heimsíðu sjóðsins, en þar kemur fram að arðsemi fjárfestingarinnar hafi verið metin góð að teknu tilliti til áhættu og það í gjaldeyrisskapandi starfsemi á tímum gjaldeyrishafta. Við ákvarðanatöku lágu jafnframt fyrir verkfræðilegar  og lögfræðilegar kostgæfnisathuganir óháðra ráðgjafafyrirtækja. Auk þess var óskað álits þriðja aðila (verkfræðistofu) á verkfræðilegri kostgæfnisathugun.

Þá kemur fram í tilkynningunni, sem finna má í heild sinni hér, að Festa lífeyrissjóður harmi þá stöðu sem upp er komin hjá félaginu en vonast eftir að í nauðasamningsferlinu takist félaginu að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu og halda áfram rekstri.

Að langstærstum hluta ganga fjárfestingar Festu vel, segir í tilkynningunni, og að teknu tilliti til varúðarniðurfærslu vegna United Silicon er raunávöxtun sjóðsins 6,0% á ársgrundvelli m.v. fyrstu sjö mánuði ársins 2017. Hvorki Séreignardeild Festu né Tilgreind séreignardeild fjárfesta í stóriðjuverkefnum.