Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjóri sáttur við vegatolla: “Ef þetta verður til þess að flýta tvöföldun”

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, telur að sátt myndi skapast um vegatollahugmyndir samgönguráðherra, ef þær yrðu til þess að flýta tvöföldun Reykjanesbrautar. Þetta kemur fram í umfjöllun Vísis um málið í dag.

„Persónulega líst mér ekki illa á þessar hugmyndir. Við höfum ýtt á það að tvöföldun Reykjanesbrautar verði lokið og ef þetta verður til þess að flýta eða hjálpa til við að koma því í höfn þá held ég að það myndi skapast sátt um það,“ segir Kjartan við Vísi.is

Hugmyndir ráðherra ganga út á að innheimt verði gjald af ökumönnum á helstu stofnæðum frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal Reykjanesbraut. FÍB, Félag bifreiðaeigenda á Íslandi, hefur mótmælt áformum ráðherra harðlega og bent á að vel yfir 40.000 kosningabærra manna hafi skrifað undir mótmæli, á innan við viku, þegar sama hugmynd var upp á borðum árið 2011.

Þá hafa yfir 300 manns tekið þátt í könnun á vef Suðurnes.net, á um einum sólahring, þar sem um 92% eru á móti vegatollum. Taka má þátt í könnuninni hér.