Nýjast á Local Suðurnes

Frá ritstjóra: Skrifast næsta mannslíf á þingmenn og ráðherra?

Tvöföldun Reykjanesbrautar og lagfæringar á Grindavíkurvegi hafa verið mikið á milli tannana á Suðurnesjamönnum undanfarnar vikur, enda stendur til að skera gríðarlega mikið niður í framlögum til samgöngumála, sé miðað við samgönguáætlun sem var samþykkt samhljóða á Alþingi skömmu fyrir kosningar. Þá má ekki gleyma því að flestir ef ekki allir þeir þingmenn, sem tóku sæti á Alþingi nýttu sér ástand vegakerfisins í kosningabaráttunni – Og lofuðu þar öllu fögru.

Fjárþörfin í lagfæringar, endurnyjun og viðhald vegakerfisins er mikil, en rætt hefur verið um að rúmlega 100 milljarða króna þurfi í lagfæringar á vegum og um 20 milljarða króna á ári í viðhald. Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) eru eigendur ökutækja rukkaðir um 70 milljarða króna  á ári í gjöld af ýmsu tagi, en samkvæmt FÍB fer hins vegar afar lítill hluti þeirrar upphæðar í rekstur vegakerfisins. Þá hafa forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar bent á þá staðreynd að áætluð tekjuaukning ríkissjóðs vegna aukningar í ferðaþjónustu á árinu 2017 sé vel yfir 20 milljarðar króna – Það er því óhætt að segja að eigendur bíla, sem eru væntanlega flest heimili landsins, auk ferðamanna , séu þegar að borga nokkuð vel fyrir afnot af vegakerfinu, þó fjármagnið sé ekki að skila sér þangað.

Raddir um harðar aðgerðir verða enn háværari með hverjum deginum sem líður, enda hafa fundarhöld barátthuhópa og sveitarstjórnarmanna með ráðherrum og þingmönnum litlu skilað. Forsvarsmenn Stopp-hópsins, baráttuhóps fyrir bættum skilyrðum á Reykjanesbraut hafa þó bent á að öllum kröfum hópsins hingað til varðandi úrbætur á Reykjanebraut hafi verið mætt, gatnamót hafi verið löguð, hringtorg séu komin í útboðsferli og að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Keflavíkurflugvelli að Hafnarfirði sé komin á samgönguáætlun, en betur má ef duga skal; það að tvöföldun sé á áætlun í kringum árið 2020 eða síðar, er engan vegin ásættanlegt miðað við umferðarþungann á þessum fjölfarnasta vegi landsins. Það eru þó margir þeirrar skoðunnar að aðgerða í líkingu við þær sem farið var í fyrir um 16 árum síðan, þegar Reykjanesbraut var lokað, sé þörf nú.

Fjölmargir miðlar hafa að undanförnu birt skoðanakannanir um vegatollahugmyndir ráðherra samgöngumála, þær kannanir sýna svart á hvítu að sú leið hugnast fólki ekki, enda telja flestir að gjaldtaka á bifreiðaeigendur sé næg fyrir.

Þá benda einhverjir á að það sé meðal annars hlutverk kosinna fulltrúa að tryggja öryggi þegna landsins og þeirra sem það heimsækja, það er ekki gert með vegakerfið í því ástandi sem það er.

Á meðan ferðamannastraumurinn eykst og sífellt minna fé fer í viðhald vegakerfisins munu líf halda áfram að tapast á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og öðrum þjóðvegum landsins. Á hverja eiga þau mannslíf skrifast? Á þá aðila sem ber að leysa svona mál og tryggja öryggi okkar; Þingmenn og ráðherra?