Nýjast á Local Suðurnes

Frá ritstjóra: Fasteignafélög moka inn seðlum eftir snilldardíla við Kadeco

Frétt Suðurnes.net, um mögulega sölu fasteignaþróunarfélags á íbúðum sem fyrirhugað var að setja í útleigu á Ásbrú hefur vakið mikla athygli. Fyrirtækið hafði gefið fjölmörgum aðilum munnlegt vilyrði fyrir leiguíbúðum á svæðinu og hafði fjöldi fólks annað hvort sagt upp leigusamningum sem það hafði fyrir, eða selt íbúðir sínar og stefndi á flutninga á Ásbrú í byrjun júní. Þetta fólk býr nú við mikila óvissu þar sem lítið er um leiguhúsnæði á svæðinu.

Annar snilldardíll Kadeco snýr að sölu á leigufélagi í eigu Kadeco þegar leigufélaginu Heimavöllum var selt leigufélagið Ásabyggð. Kaupverðið var ekki gefið upp, en athygli vakti að leigufélagið Heimavellir hækkaði leiguverðið til viðskiptavina Ásabyggðar áður en blekið var þornað á samningnum og áður en króna hafði fengist upp í söluverðið. Eftir kaupin varð til stærsta leigufélag landsins.

Gætu hagnast um milljarða á hálfu ári

Forsaga fyrra málsins er sú að í desember síðastliðnum gekk Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, frá samningum á sölu á um 90.000 fermetrum af íbúðar- og iðnaðarhúsnæði við fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir hf. að undangengnum löngum viðræðum. Söluverð húsnæðisins var 5 milljarðar króna, eða um 55.000 krónur á fermeterinn. Og svona til að setja það í samhengi þá er það á pari við fermetraverð á íbúð í fjölbýlishúsi í Síberíu skv. fasteignaleit Google, kannski örlítið hærra. Rétt er að taka fram að húsnæðið var í misjafnlega góðu eða slæmu ástandi, eftir því hvernig á það er litið, og áætlaði kaupandinn að leggja um 2 og hálfan milljarð króna í endurbætur – þar með yrði fermetraverðið orðið um 83.000 krónur.

Samningarnir voru, eins og áður segir, undirritaðir í desember síðastliðnum, en þá hefði flestum átt að vera ljóst að fasteignaverð var á hraðri uppleið, enda gríðarleg uppbygging á Suðurnesjasvæðinu og þá sérstaklega ferðamannaiðnaðinum. Stjórnendum þróunarfélagsins Kadeco virðist hins vegar hafa yfirsést þessi þróun og selt íbúðir og iðnaðarhúsnæði á frekar lágum verðum til fárra aðila (38 aðilar keyptu nær allar eignir Kadeco – Um 320.000 fermetra og var söluverðið um 17 milljarðar króna, eða 53.000 kr. per ferm.)

Það er gaman að leika sér að tölum og þar sem eigendur Íslenskra fasteigna hf. hafa verið afar snjallir í viðskiptum í gegnum tíðina skulum við setja dæmið þannig upp að þeir komi hverjum einasta fermetra í verð, sem gerir dæmið ekkert svakalega flókið – Segjum að fyrirtækið selji eignir á frekar lágu fermetraverði íbúðar í sæmilegu standi á Suðurnesjasvæðinu (190.000 kr. ferm. skv. nýlegum fasteignaauglýsingum) – Þá gæti fyrirtækið hagnast um tæplega 10 milljarða króna, eða svipað og íslenska ríkið hefur hagnast á viðskiptum með sína 320.000 fermetra á þeim 10 árum sem liðin eru síðan herinn yfirgaf landið.

Hækkuðu og stækkuðu

Síðara dæmið snýst um samning við leigufélagið Heimavelli, sem er í dag stærsta leigufélag landsins með 1.714 íbúðir á sínum vegum, fyrirtækið hefur vaxið gríðarlega eftir kaupin á leigufélaginu Ásabyggð, en fyrir var félagið með 445 íbúðir á sinni könnu. Fyrirtækið fékk 716 íbúðir í hendurnar við kaupin á Ásabyggð og leigutekjur fyrirtækisins margfölduðust á síðasta ári, fóru úr 512 milljónum króna árið 2015 í 1.495 milljónir króna árið 2016.

Þá vakti athygli að fyrirtækið hækkaði leiguverð til viðskiptavina sinna á Ásbrú, nánast daginn eftir að skrifað var undir samninga við Kadeco um kaupin á Ásabyggð, í sumum tilfellum um tugi þúsunda á mánuði.

Því er oft haldið fram að hlutverk fjölmiðla eigi meðal annars að vera það að sýna yfirvöldum aðhald – Suðurnes.net hefur margoft fjallað um viðskipti tengd Kadeco á gagnrýnan hátt undanfarin misseri, einn fárra fjölmiðla, og þá einkum gagnrýnt á hversu fáar hendur umræddar eignir hafa farið, afar lágt fermetraverð og háar launagreiðslur og þóknanir til stjórnenda og stjórnarmanna fyrirtækisins.