Nýjast á Local Suðurnes

Vilhjálmur með slaka mætingu á nefndafundi

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi var sá þingmaður sem var með einna slökustu mætingu á fundi fastanefnda Alþingis síðasta vetur. Það var blaðamaður DV sem tók mætingartölurnar saman og samkvæmt þeim mætti Vilhjálmur á 52 fundi af 76 sem haldnir voru í tveimur nefndum sem hann á sæti í, Velferðarnefnd og Allsherjar- og menntamálanefnd.

Í umfjöllun DV um mætingar á fundi kemur einnig fram að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks hafi verið með flotta mætingu, en hann mætti á vel yfir 90% þeirra funda sem hann var boðaður á í fastanefndum Alþingis.

Það geta verið ýmsar skýringar á misjöfnum mætingum þingmanna á fundi á vegum Alþingis, meðal annars geta þingmenn verið í mismörgum nefndum og nefndarfundir geta verið á sama tíma.