Nýjast á Local Suðurnes

Greiða 150 milljóna aukareikninga vegna Stapaskóla

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt og falið sviðsstjóra umhverfissviðs að ganga frá greiðslu vegna uppgjöra á aukaverkum vegna fyrsta áfanga Stapaskóla. Upphæðin nemur 154.568.901 krónum.

Töluverður hiti var í bæjarfulltrúum vegna lokauppgjörs við verktaka byggingarinnar rétt áður en skólahald hófst í hinni nýju byggingu undir lok árs 2020, enda þótti minnihluta bæjarstjórnar verkið hafa dregist úr hófi og kostnaður aukist umfram áætlanir. Bæjarfulltúar Miðflokks og fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókanir vegna málsins á þeim tíma. Bókanirnar má sjá hér fyrir neðan:

Bókun Miðflokks

Lýst er yfir miklum vonbrigðum með fjárhagshlið- og stöðu Stapaskóla. Það er ólíðandi að sveitarfélagið hafi ekki gætt að þeim málum fyrr en nú. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur áherslu á að ekki verði haldið áfram með málið fyrr en bæjarráð hefur fengið ítarlega kynningu á fjárhagsmálefnum skólans eins og kom fram í bókun Sjálfstæðisflokksins á síðasta bæjarráðsfundi þann 13. ágúst sl. og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins og Frjáls Afls studdu og tóku undir.
Það er ljóst að sveitarfélagið getur ekki gengið að kosti A að samþykkja viðauka og verktaki mun skila skólanum samkvæmt dagsetningum viðauka og að skólahald hefjist 24. ágúst eins og til stóð. Meirihlutinn hefur þegar samþykkt þessa leið með væntanlegum tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur. Að ákveða að falla frá dagsektum er mjög óábyrgt og að samþykkja aukaverk frá verktakanum og taka upp í skuld dagsekta er fáheyrt. Bæði meirihlutinn og verktakinn hafa brugðist í þessu máli og og þeir sem gjalda fyrir þessi vinnubrögð eru tilvonandi nemendur við skólann. Verði leið A farin skapar það mikið fordæmi fyrir framtíðina á kostnað sveitarfélagsins. Engin önnur leið er fær en leið B sem gengur út á að hafna viðauka og verktaki mun draga úr framkvæmdum (yfirvinnu) til minnka kostnað og mun ekki skila skólanum á þeim tíma sem við þurfum svo hægt sé að nýta húsnæðið fyrir skólahald í haust. Það verður að hafa það að við taka málaferli þar sem verktaki og verkkaupi takast á um réttmætar (og óréttmætar) bætur. Verkkaupi/Reykjanesbær, mun beita dagsektum og verktaki mun halda sínum fullnaðarkröfum til að lágmarka tjón sitt. Það er skólaskylda í landinu og bæjarfélaginu ber skylda samkvæmt lögum að finna pláss í skólum bæjarins fyrir þau börn sem hefja áttu nám við skólann í haust.“
Margrét Þórarinsdóttir (M)

Bókun meirihluta bæjarstjórnar

Bæjarfulltrúi Miðflokksins lagði á síðasta bæjarstjórnarfundi fram kostulega bókun um Stapaskóla og það samkomulag sem búið var að samþykkja í bæjarráði af öllum atkvæðisbærum fulltrúum.
Þetta samkomulag var eingöngu gert til þess að ná fram því markmiði að geta hafið skólastarf á réttum tíma og skapa sátt vegna þeirra fordæmalausu stöðu sem Covid-19 hefur leitt af sér.
Erfitt er að skilja tilgang þessarar bókunar nema þá að hún sé lögð fram til þess að reyna að þyrla upp moldvirði og skapa vantraust sem virðist vera háttur Miðflokksins hvar sem hann ber niður.
Nú er skólastarf hafið í Stapaskóla sem verður án efa einn glæsilegasti skóli landsins. Haldið hefur verið mjög vel utan um alla þætti og hafa allar fjárhagsáætlanir staðist.
Það eina sem sem er rétt í bókun fulltrúa Miðflokksins er að tímaáætlanir stóðust ekki eins og ráð var fyrir gert, en það kemur ekki að sök, þar sem sú tímalína sem samið var um gerir það að verkum að skólahald er nú hafið.
Að hleypa öllu í bál og brand eins og fulltrúi Miðflokksins lagði til, hefði sett allt skólastarf í upplausn og skólahald í Stapaskóla í óvissu um langa hríð. Nú er undirbúningur 2. áfanga hafinn þar sem byggt verður íþróttahús og sundmiðstöð sem verður til mikilla hagsbóta fyrir skólann, íþróttafélögin og samfélagið allt í Innri Njarðvík.
Því ber að fagna.“

Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Styrmir Gauti Fjeldsted (S)