Keflvíkingar vilja búa til afreksmenn í knattspyrnu – Þeir bestu komast í Bláa-liðið
Bláa liðið er verkefni sem nýlega var sett af stað af Knattspyrnudeild Keflavíkur, en markmiðið með því er að styðja við þjálfun ungra knattspyrnuiðkenda í 3. og 4. flokki kvenna og karla hjá félaginu.
Þá verður afreksfólki í þessum flokkum boðið á séræfingar með það að leiðarljósi að þeir leikmenn verði í framtíðinni leikmenn meistaraflokka karla og kvenna.
Þjálfarar yngri flokka Keflavíkur munu sjá um æfingar en ætlunin er að fá reglulega gestaþjálfara til að styðja við verkefnið. Það er Magnús Sverrir Þorsteinsson, leikmaður Keflavíkur til margra ára, sem er helsti hvatamaður að þessu verkefni og aðal samstarfsaðili þess en Barna- og unglingaráð Keflavíkur útvegar þjálfara auk þess að velja leikmenn til þátttöku.
Knattspyrnudeildin vonast til að þetta styðji og styrki ungt fólk sem er á mála hjá félaginu í að ná enn lengra í knattspyrnu.