Nýjast á Local Suðurnes

Kolrassa er klár í geggjað nineties nostalgígjuflipp – Tónleikar og plötuútgáfa í nóvember

Kolrassa Krókríðandi, skipuð upprunalegum meðlimum, ætlar að halda þrusu tónleika og flytja fyrstu plötu sína, Drápu á skemmtistaðnum Húrra í Reykjavík laugardaginn 25. nóvember næstkomandi. Miðaverði á tónleikana er mjög svo stillt í hóf, en aðeins kostar 1992 krónur inn.

Hljómsveitin safnaði fyrir útgáfu plötunnar á hópfjármögnunarsíðunni Karolina fund og gekk söfnunin vonum framar.

Í tilkynningu á Fésbókarsíðu hljómsveitarinnar segir að Drápa verði komin fersk úr prentun á Vínyl og CD þegar tónleikarnir verða haldnir, en þá verða komin 25 ár frá því hún kom út fyrst.

“Vertu með í geggjuðu nineties nostalgígjuflippi, afmælisveislu Kolrössu Krókríðandi, ásamt undurfríðum og eldhressum leynigestum!” Segir einnig á Fésbókarsíðunni.

Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.