Útilokað að samningar um skuldaniðurfellingu náist fyrir bæjarstjórnarfund
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að ekki sé enn ljóst hvort tillaga um fjárhaldsstjórn yfir sveitarfélaginu verði afgreidd eða henni frestað á fundi bæjarstjórnar á morgun. Málinu var frestað á síðustu stundu á síðasta fundi bæjarstjórnar, þegar kröfuhafar óskuðu eftir frekari viðræðum um skuldaniðurfellingu og hafa viðræður staðið síðan.
Kjartan sagði í samtali við fréttastofu RÚV í morgun að viðræður héldu áfram en nú væri algjörlega útilokað að samningar næðust um skuldaniðurfellingu fyrir bæjarstjórnarfundinn á morgun. Þá væri tvennt í stöðunni, að fresta afgreiðslu tillögu um fjárhaldsstjórn og halda áfram viðræðum, eða slíta þeim og afgreiða tillöguna. Niðurstaðan færi eftir því hvernig fram vindur í viðræðunum í dag og á morgun.