Nýjast á Local Suðurnes

Meirihlutinn: Áframhaldandi strangt aðhald í rekstri Reykjanesbæjar

Fulltrúar þeirra flokka sem skipa meirihlutann í bæjarstjórn Reykjanesbæjar voru að vonum ánægðir með nýsamþykkta fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem afgreidd var í bæjarstjórn í gær. Í bókun sem fulltrúarnir lögðu fram er bæjarfulltrúum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, nefndarfólki, starfsmönnum, ráðgjöfum og íbúum sveitarfélagsins sérstaklega þakkað fyrir fyrir gott samstarf á árinu. Bókunina má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

„Í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2014 var myndaður nýr meirihluti, Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar og óháðra. Helsta markmið meirihlutans var að ná tökum á fjármálum sveitarfélagsins sem þá voru komin í óefni en um leið að verja grunnþjónustuna og hagsmuni barna fjölskyldna. Jafnframt var lögð áhersla á að stuðla að fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi og fjölga vel launuðum störfum.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins var það hæsta í landinu eða 249% í árslok 2013. Svokölluð aðlögunaráætlun, sem sýndi hvernig sveitarfélagið ætlaði að komast undir 150% skuldaviðmið fyrir lok árs 2022 og bæjaryfirvöld höfðu skilað inn til Innanríkisráðuneytisins árið 2013, hafði ekki gengið eftir. Staðan fór versnandi og skuldaviðmiðið hækkaði í stað þess að lækka. Framlegð úr venjubundnum rekstri dugði ekki fyrir fjármagnsgjöldum, afskriftum, nýjum fjárfestingum eða viðhaldi, með þeim afleiðingum að skuldir héldu áfram að aukast.

Sóknin
Frá því að núverandi meirihluti tók við, eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2014, hefur allt kapp verið lagt á að ná tökum á fjármálum Reykjanesbæjar. Þann 29. október 2014 var Sóknin, áætlun um hvernig ná mætti tökum á fjármálum Reykjanesbæjar, kynnt á fjölmennum íbúafundi í Stapa. Rekstur og stjórnskipulag allra sviða hefur verið endurskoðað með tilliti til hagræðingar og skilvirkni. Einnig hefur atvinnuleysi minnkað þannig að í Reykjanesbæ er atvinnuleysi með því minnsta sem þekkist á Íslandi. Þetta hvorutveggja, aukin atvinnuþátttaka og betri stjórn á útgjaldahliðinni hefur skilað þeim árangri að nú er gert ráð fyrir að grunnrekstur sveitarfélagsins skili 10% framlegð án þess að lögboðin grunnþjónusta sé skert, en markmiðið er að koma rekstrinum í 15% framlegð á næstu árum. Fjármagnsgjöld eru samt enn þungur baggi á sveitarfélaginu og hefur mikil áhersla verið lögð á að ná samkomulagi við stóran hóp kröfuhafa um endurskipulagningu með það að markmiði að lækka skuldir og skuldbindingar og þar með fjármagnskostnað. Viðræður þar að lútandi standa enn yfir við kröfuhafa hafnarinnar, en samkomulag hefur náðst við stærstu kröfuhafana þ.e. lánveitendur Eignarhaldfélagsins Fasteignar. Gert er ráð fyrir að færa allar eignir og skuldir sem tilheyra lögbundinni starfsemi s.s. skóla, leikskóla og íþróttahús úr Eignarhaldsfélaginu inn í bæjarsjóð. Aðrar eignir, sem ekki eru lögbundnar, s.s. Hljómahöllin, 88 húsið o.fl. verða áfram inni í Eignarhaldsfélaginu ásamt tilheyrandi skuldum.

Aðrar aðgerðir sem ákveðið hefur verið að grípa til eru að færa félagslega íbúðakerfið, sem í dag er rekið af Fasteignum Reykjanesbæjar ehf., í sjálfseignarstofnun sem verður að fullu í eigu Reykjanesbæjar eins og heimild er fyrir í nýjum húsnæðislögum. Þar með færist rekstur, skuldir og eignir þess félags út úr reikningum og samstæðu Reykjanesbæjar og um leið úr ábyrgð sveitarfélagsins. Til ýmissa fleiri aðgerða hefur verið gripið til þess að ná settum markmiðum um að komast undir 150% skuldaviðmiðið fyrir árslok 2022 og um leið verður bæjaryfirvöldum gert kleift að leggja fram trúverðuga aðlögunaráætlun til Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, eins og lög gera ráð fyrir. Þá er einnig rétt að benda á að í 3ja ára áætlun 2017-2020 næst að uppfylla jafnvægisregluna, það er að samanlögð heildarútgjöld A- og B-hluta til rekstrar séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hvoru tveggja er gríðarlega stór áfangi.

Útsvar lækkar aftur 2018
Með sérstöku samkomulagi við Innanríkisráðherra var Reykjanesbæ veitt sérstök heimild til að leggja auknar álögur á íbúa og var útsvarið hækkað tímabundið úr 14,52% í 15,05% en samstaða er um að færa það aftur niður í 14,52% 1. janúar 2018.

Hér er margt gott að gerast
Þótt mikils aðhalds hafi verið gætt í rekstri hefur margt verið gert og svo verður áfram. Í skólamálum er undirbúningur hafinn að byggingu nýs grunnskóla í Dalshverfi í Innri-Njarðvík auk þess sem Háaleitisskóli hefur verið stækkaður. Húsgögn í grunnskólum hafa verið endurnýjuð að hluta og aðstaða á skólalóðum bætt. Áfram verður unnið að fjölgun leikskólaplássa, systkinaafsláttur látinn gilda á milli skólastiga og sálfræðiþjónusta við grunnskólanemendur verður efld.

Í velferðarmálum er gert ráð fyrir auknum stuðningi við íbúa í viðkvæmri stöðu s.s. börn og fólk sem glímir við geðraskanir og aðra fötlun. Aukin áhersla verður lögð á forvarnir og lýðheilsu og að bæta þá þjónustu sem veitt er.
Í íþrótta- og tómstundamálum hafa hvatagreiðslur verið hækkaðar í kr. 21.000.- fyrir hvert barn en þær voru kr. 7.000 í upphafi kjörtímabilsins. Auk þess verður ýmis aðstaða í íþróttamannvirkjum Reykjanesbæjar bætt s.s. í Bardagahúsinu við Iðavelli, aðstaða til upphitunar-, styrktar- og teygjuæfinga sundfólks ÍRB auk þess sem klukkur í keppnishúsunum í Keflavík og Njarðvík verða endurnýjaðar. Þá hefur Golfklúbbi Suðurnesja og Púttklúbbi Suðurnesja verið búin góð aðstaða í Íþróttaakademíunni.

Í umhverfis- og skipulagsmálum verður áfram unnið að nauðsynlegu viðhaldi fasteigna, opinna svæða og gatnakerfis auk þess sem áfram verður unnið að útskiptingu hefðbundinnar lýsingar fyrir LED ljós. Nokkur vinna hefur verið lögð í viðgerðir og uppbyggingu gamalla húsa á DUUS torfunni og verður þeirri vinnu haldið áfram

Fjárheimildir2017
Í fjárheimildum 2017 er gert ráð fyrir auknum tekjum vegna fjölgunar íbúa og betra atvinnuástands. Á móti er gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna fjölgunar íbúa en um leið áframhaldandi ströngu aðhaldi í rekstri svo takast megi að auka framlegð. Einnig er gert ráð fyrir að samningar við kröfuhafa skili nauðsynlegri lækkun fjármagnskostnaðar og að samstæða A og B hluta verði rekin með 385 milljóna króna afgangi. Helstu niðurstöður í fjárheimildum næsta árs, 2017, verða eftirfarandi:

· Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta verður jákvæð um kr. 385 milljónir
· Rekstrarniðurstaða A hluta bæjarsjóðs verður neikvæð um kr. 187 milljónir
· Eignir samstæðu árið 2017 í árslok 2017 verða kr. 45,8 milljarðar
· Eignir bæjarsjóðs árið 2017 í árslok 2017 verða kr. 24,5 milljarðar
· Skuldir og skuldbindingar samstæðu verða í árslok 2017 kr. 39 milljarðar
· Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs verða í árslok 2017 kr. 21,3 milljarðar
· Veltufé frá rekstri samstæðu árið 2017 er áætlað kr. 3,5 milljarðar
· Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs árið 2017 er áætlað kr. 1,348 milljónir
· Framlegð samstæðu A og B hluta árið 2017 er áætluð 21%.
· Framlegð A hluta bæjarsjóðs árið 2017 er áætluð 12%
· Skuldaviðmið bæjarsjóðs verður 152,6%
· Skuldaviðmið samstæðu verður 183%

Þakkir
Að lokum vilja bæjarfulltrúar meirihlutans þakka íbúum, bæjarfulltrúum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, nefndarfólki, starfsmönnum og ráðgjöfum fyrir gott samstarf á árinu og óskar öllum bæjarbúum innilega til hamingju með þann árangur sem náðst hefur. En betur má ef duga skal. Við erum enn í sókn og stefnum markvisst að því að rétta við hag sveitarfélagsins og þar með hag íbúa.“

Gunnar Þórarinsson, Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Davíð Páll Viðarsson og Kolbrún Jóna Pétursdóttir.