Keflavíkurnætur 12.-14. ágúst – Þýski diskóboltinn Haddaway kemur fram
Keflavíkurnætur fara fram helgina 12 – 14. ágúst næstkomandi og er þetta í þriðja skiptið sem hátíðin er haldin. Það er óhætt að segja að hátíðin hafi hrist upp í næturlífinu í Reykjanesbæ undanfarin tvö ár, enda hefur verið boðið upp á frábæra tónlistaviðburði á helstu skemmtistöðum bæjarins, þar sem margir af vinsælustu tónlistarmönnum landsins hafa troðið upp.
Að þessu sinni hefur fyrsti tónlistarmaðurinn þegar verið kynntur til leiks, en sá er af erlendu bergi brotinn, sjálfur Haddaway mun troða upp á hátíðinni að þessu sinni, en fyrir þá sem ekki vita, er sá þýskur diskóbolti, sem hvað þekktastur er fyrir lagið “What is love,” sem gerði allt vitlaust á níunda áratug síðustu aldar og náði meðal annars fyrstu sætum á vinsældarlistum í 13 löndum víða um heim. Að sögn Árna Árnasonar, talsmanns hátíðarinnar verða síðan fleiri listamenn kynntir til leiks, einn af öðrum næstu dagana.
„Já þetta er á flugi núna og stefnir í pottþétta helgi. Eins og síðustu tvö ár kynnum við til leiks einn og einn viðburð, það er skemmtilegra. Við erum búnir að kasta fram að engin annar en sjálft goðið Haddaway mætir á svæðið. Þetta er í fyrsta skiptið sem við fáum erlendan gest á Keflavíkurnætur og má segja að Haddaway er spenntur að koma fram í Bítlabænum,“ segir Árni Árnason talsmaður hátíðarinnar.
Árni segir að móttökurnar síðastliðin tvö ár hafi verið frábærar og tekur fram að forsala sé hafin á fyrstu 100 helgarpössunum á sérstöku forsöluverði, eða aðeins 4.900 kr. í Gallerí Keflavík.
„Keflavíkurnætur eru komnar til að vera, móttökurnar síðustu 2 ár hafa verið frábærar og ég vona að Suðurnesjamenn verði í gírnum þetta árið líka. Það er gaman að hrista upp í fjörinu í samstarfi við helstu skemmtistaðina, svo ég vona að sem flestir grípi tækifærið og fjárfesti í helgarpassa á þessu grínverði,” segir Árni og bætir við að “þið sem vitið ekki hver Haddaway er skellið ykkur á youtube og ég lofa ykkur að þið viljið ekki missa af þessu. Nánari dagskrá verður kynnt jafn og þétt í júlí á facbooksíðu hátíðarinnar.”