Nýjast á Local Suðurnes

MMS og Kaupfélag Suðurnesja standa fyrir ráðstefnu

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í samstarfi við Kaupfélag Suðurnesja stendur fyrir ráðstefnu um jákvæða líkamsmynd þann 13. ágúst 2015 í Stapa, Hljómahöll, þetta kemur fram í tilkynningu frá MMS, tilkynninguna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.

Ráðstefnan er fyrir fagfólk á öllum skólastigum, og má þar nefna kennara, skólastjórnendur, námsráðgjafa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, tómstundafulltrúa, foreldra og aðra. Skráning fer fram á heimasíðu Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, www.mss.is.

Sköpum umræðu – eflum þekkingu
MSS tekur þátt í Grundtvig verkefninu Negative um áhrif neikvæðrar líkamsmyndar á andlega líðan ungs fólks, sjálfsmynd og velgengni í lífinu. Rannsóknir sýna tengsl á milli neikvæðrar líkamsmyndar og erfiðleika af sálfræðilegum toga sem síðan hefur áhrif á nám og námsframvindu. Markmið Negative eru að tengja saman rannsakendur og fagaðila sem vinna með ungu fólki og efla þannig þekkinguna varðandi þá áhættuþætti sem tengjast neikvæðri líkamsmynd.

Vitundarvakning – snúum vörn í sókn
Afleiðingar neikvæðrar líkamsmyndar geta verið mjög alvarlegar og er þörf á vitundarvakningu í samfélaginu öllu til þess að sporna við þeirri þróun. Neysla og sjálfskaðandi hegðun, þunglyndi og aðrir andlegir erfiðleikar eru allt þættir sem má tengja við neikvæða líkamsmynd. Rannsóknir hafa sýnt að vandinn eykst mikið snemma á unglingsárunum og því mikilvægt að bregðast við þessum vanda á öllum skólastigum.

Saman getum við stuðlað að breyttu viðhorfi, með það að markmiði að efla sjálfsmynd, kraft og hæfileika unga fólksins. Vinnum saman að því að byggja upp jákvæða líkamsmynd og sterka sjálfsmynd.

Skráning er á mss.is