Nýjast á Local Suðurnes

Tveggja milljarða króna fjárfesting HS Orku safnar ryki

Ríflega tveggja milljarða króna túrbína HS Orku, sem var keypt árið 2010, stendur ennþá ónotuð inni á gólfi í Reykjanesvirkjun. Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku segir að ágreiningur við Norður­ál komi í veg fyrir að túrbínunni verði komið í gagnið.

„Túrbínan var keypt árið 2010 og var hugsuð fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku við Viðskiptablaðið. Túrbínan er háþrýstigufuhverfill sem var sérsmíðaður af Fuji í Japan fyrir HS Orku. „Hún var keypt til að afla orku fyrir samninginn við Norðurál í Helguvík. Sá samningur er ekki orðinn virkur,“ segir Ásgeir.

Áður hefur verið greint frá því að HS Orka hefði hafið gerðardómsferli til að losna undan orkusölusamningum sem fyrirtækið undirritaði við Norðurál í apríl 2007 vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Vinni HS Orka málið má teljast fullvíst að álver Norðuráls í Helguvík sé endanlega úr sögunni. Málsrök voru þau að ákvæði orkusölusamningsins hafi ekki verið uppfyllt og þar með sé hann ekki lengur í gildi. Norðurál telur þetta ekki rétt og ætlar að taka til varna. Niðurstaða í gerðadómsmálinu á að liggja fyrir sumarið 2016.