Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður HS Orku eykst um rúman milljarð króna

Hagnaður HS Orku fyrstu sex mánuði ársins nam 1.278 milljónum, en á sama tímabili 2015 var hagnaður af rekstri fyrirtækisins 142 milljónir. Rekstartekjur námu 3.507 milljónum.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 874 m.kr. en voru neikvæðir um 1.568 m.kr. á sama tímabili  árið 2015. Hækkun á virði afleiða (framtíðarvirði orkusölusamninga sem tengjast álverði) er meginorsök breytingarinnar, en þeir voru jákvæðir um 841 m.kr. á fyrstu sex mánuðum 2016 en lækkuðu um 1.239 m.kr. á sama tímabili 2015. Áhrif gengisbreytinga voru jákvæð um 150 m.kr. en voru neikvæð um 282 m.kr. á sama tímabili 2015.

Heildarhagnaður nam 1.193 milljónum á fyrri helmingi ársins 2016 samanborið við hagnað upp á 75 milljónir á sama tímabili 2015.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku, en þar kemur einnig fram að eiginfjárhlutfall 30. júní 2016 er áfram mjög hátt eða 62,3% en var í árslok 2015 58,6%.