Nýjast á Local Suðurnes

Rekstur Isavia gengur vel – Fjárfestingar fyrir 6,5 milljarða á Keflavíkurflugvelli

Aðalfundur Isavia var haldinn í dag, á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Á fundinum var farið yfir rekstur og afkomu félagsins og ársskýrsla fyrir árið 2015 kynnt. Isavia annast rekstur allra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu á Íslandi og er eitt af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins.

Í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að rekstur Isavia hafi gengið vel á árinu 2015 eins og undanfarin ár. Heildartekjur Isavia samstæðunnar á árinu námu 26 milljörðum króna sem er aukning um 4 milljarða eða 18% frá árinu 2014.  Þá kemur einnig fram að fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum hafi numið alls 7,6 milljörðum króna og þar af séu 6,5 milljarðar króna tilkomnir vegna fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli.

Árið 2016 greiðir samstæða Isavia um 481 milljón króna í tekjuskatt. Þá skilaði Fríhöfnin um 452 milljónum króna í áfengis- og tóbaksgjald til ríkissjóðs og hefur því skilað alls um 1,8 milljarði króna frá árinu 2011, til ríkissjóðs í formi fyrrnefndra gjalda. Framlag Isavia til ríkisins í formi greiddra og innheimtra skatta nam 5,2 milljörðum króna á síðasta ári, og hækkaði úr 4,4 milljörðum króna frá árinu 2014.

“Árið 2015 ber þess vitni að rekstur Isavia er í góðu jafnvægi og það ber fyrst og fremst að þakka öflugu starfsfólki sem hefur tekist að bregðast við fádæma aukningu í farþegafjölda og flugumferð með arðsemi og þjónustulund að leiðarljósi. Það má segja að það séu gríðarmiklar breytingar og áskoranir á öllum sviðum hjá Isavia og þó svo að viðfangsefnin séu ólík þá eiga þau það sameiginlegt að án trausts starfsfólks munum við ekki ná þeim árangri sem stefnt er að. ” Segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia í tilkynningu.