Nýjast á Local Suðurnes

Kaffitár tapaði 20 milljónum króna – Hár lögfræðikostnaður vegna forvals í FLE

Verksmiðja Kaffitárs í Reykjanesbæ

Kaffitár tapaði 19,8 milljónum króna árið 2015, en árið 2014 var hagnaður fyrirtækisins um 1,6 milljón. Í lok árs 2015 voru eignir Kaffitárs metnar á 769,9 millj­ ónir samanborið við 766,6 milljónir árið áður. Eigið fé Kaffitárs í lok árs 2015 nam 329,5 milljónum og skuldir félagsins námu 440,3 milljónum. Launakostnaður fyrirtækisins var 402,6 milljónir króna árið 2015. Þetta kemur fram í frétt á vef Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækið hefur undanfarin misseri staðið í málaferlum við Isavia, vegna útboðs á veitingarekstri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en fyrirtækið missti sem kunnugt er aðtöðu sem það hafði í Flugstöðinni eftir umdeilt útboð. Málaferlin hafa haft í för með sér töluverðan kostnað fyrir fyrirtækið.

Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, forstjóri fyrirtækisins, svaraði ekki fyrirspurnum Suðurnes.net vegna málsins, en Aðalheiður Héðinsdóttir, fyrrverandi forstjóri Kaffitárs, sagði í viðtali við DV.is um miðjan júní að kostnaður fyrirtækisins vegna lögfræðiþjónustu næmi 5,6 milljónum króna, þá væri ótalin sú vinna og tími sem stjórnendur fyrirtækisins hafi lagt í málið. Fyrirtækið stofnaði bakarí og var stærð þess meðal annars ákveðin með viðskiptin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í huga.

„Áður en umsókn okkar um pláss í flugstöðinni var hafnað vorum við svo bjartsýn að við stofnuðum bakarí, Kruðerí, en tekjur þess drógust náttúrulega saman um 50% þegar við fórum úr Leifsstöð.” Segir Aðalheiður í viðtalinu við DV.is.