Nýjast á Local Suðurnes

Endurbætur við veginn að Bláa lóninu – Stórauka umferðaröryggi á Grindavíkurvegi

Nú standa yfir umtalsverðar framkvæmdir og endurbætur á gatnamótum Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar, sem margir þekkja sennilega betur sem Bláalónsveginn. Umferð um þessi gatnamót hefur aukist mikið síðastliðin ár og hefur Grindavíkurbær þrýst mjög á Vegagerðina um umbætur á þessum fjölförnu gatnamótum og því mikið fagnaðarefni að framkvæmdir skuli vera komnar á fullt.

Á vefsíðu Grindavíkurbæjar kemur fram að með breytingunum verða sér beygjuakgreinar inná Norðurljósaveginn úr báðum áttum þannig að umferð um Grindavíkurveg á að ganga að mestu óhindruð í báðar áttir. Þá verða gatnamótin einnig lýst upp og vegaxlir breikkaðar umtalsvert í báðar áttir til þess að tryggja eðlilegt flæði umferðar. Markmiðið með þessum framkvæmdum er að auka umferðaröryggi vegfarenda og verður vonandi um mikla bragabót í umferðarmálum að ræða.