Nýjast á Local Suðurnes

Milljarður frá Kaupfélaginu í Rósasel – Framkvæmdir hafa tafist um ár vegna skipulagsmála

Stærsti hluti kostnaðar vegna verslunarkjarna sem fyrirhugað er að reisa við Rósaselstorg, skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, verður fjármagnaður af Kaupfélagi Suðurnesja, enn sem komið er. Um er að ræða kostnað upp á tæplega milljarð króna, en tafir hafa orðið á framkvæmdum sem áttu upphaflega að fara af stað fyrir um ári síðan.

Tafirnar eru að mestu leiti til komnar vegna skipulagsmála, segir Skúli Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins.

„Skipulagsmál hafa tafið framvindu verkefnisins en það voru kvaðir á svæðinu meðfram Reykjanesbraut sem voru í gamla skipulagi Keflavíkurflugvallar. Það er verið að létta þessum kvöðum, og breyta aðal- og deiliskipulagi svæðisins, og við erum vongóðir um að framkvæmdir hefjist í ágúst eða september,“ segir Skúli.

Viljayfirlýsingar hafa verið undirritaðar við fjögur fyrirtæki um rekstur í verslunarkjarnanum. Nettó, sem er í eigu Samkaupa, dótturfélags Kaupfélags Suðurnesja, Olís reka þar bensínstöð og Subway, Pizza Hut, KFC, Taco Bell og Grill 66 veitingastaði.