Verslunarrisar skella í lás í Reykjanesbæ
Hagar stefna að því að loka sérvöruverslun Hagkaups í Njarðvík í apríl næstkomandi en breyttar áherslur innan Hagkaups eru ein helsta ástæða lokunarinnar. Þá lokaði raftækjaverslunin Ormsson við Hafnargötu um áramót.
Hagkaup opnaði verslun sína á Fitjum árið 2007, en á síðustu misserum hefur orðið gríðarleg breyting á neysluvenjum Íslendinga, segir í tilkynningu frá Hagkaup. Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir að af þessum sökum hafi sú erfiða ákvörðun að loka sérvöruverslun í Njarðvík verið tekin. Sigurður segir Hagkaupsmenn vera þakkláta fyrir árin á Suðurnesjum og þakkar viðskiptavinum og starfsfólki fyrir frábæran tíma. Öllum átta starfsmönnum fyrirtækisins var tilkynnt um fyrirhugaða lokun um mánaðarmótin síðustu.
Raftækjaverslun Ormsson lokaði verslunn sinni við Hafnargötu um áramót, en raftækjarisinn hafði rekið verslun í Reykjanesbæ um árabil. Í tilkynningu sem fest hefur verið upp í glugga verslunarinnar segir að um tímabundna lokun sé að ræða en ekki er nánar tilgreint um ástæður þess. Ekki náðist í forráðamenn Ormsson við vinnslu fréttarinnar en fyrirtækið lokaði einnig verslun sinni á Egilsstöðum frá sama tíma.