Nýjast á Local Suðurnes

Kannabis, Píratar og Sturla Jónsson – Laufléttur Árni Árna á föstudegi

Sigga Dögg kynfræðingur lenti í því í Húsgagnahöllinni að starfsmaður benti henni góðfúslega á að hún gæti verið of þung fyrir eldhússtólana sem hún hugðist fjárfesta í. Samkvæmt Húsgagnahöllinni bera ódýrari stólar minni þyngdtakmörk, eða rétt um 70 til 80 kg. Ég hef sjálfur verið veikur fyrir Markus stólunum og skoðaði þá á dögunum í Húsgagnahöllinni. Ég þakka mínu sæla að hafa ekki reynt að kaupa þá og látið staffið vigta mig með augunum og segja því miður þú ert bara of feitur í þessa stóla. Ég spyr þá hver eru þyngdartakmörkin á stólana í Rúmfatalagernum ? Best að googla þetta til að koma í veg fyrir niðurlægingu þegar maður ræðst í stólakaup.

local

Árni Árnasson

Það kemur ekki á óvart að íslenski bjórinn er ódýrari erlendis. Álagning ríkis og Vínbúðanna er með ólíkindum. Það er einkennilegt að íslenskar vörur, matvæli og bjór er ódýrari erlendis en út í næstu verslun. Þetta segir okkur bara eitt, við eigum að leyfa innflutning á erlendu kjöti þar sem það íslenska þolir samkeppni og verðlækkun. Það er með ólíkindum að íslenskir neytendur niðurgreiði íslenskar vörur fyrir erlendan markað. Þá sýnir þetta og sannar að við eigum að samþykkja frumvarp Vilhjálms Árnasonar þingmanns um sölu áfengis í verslunum og fá smá samkeppni sem skilar sér í lægra verði til neytenda.

Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri er sniðugur, ekki nóg með að vera á svimandi háum launum hjá borginni þá fékk hann borgað fyrir að koma frá á menningarnótt. Þetta kalla maður klókindi. Suðmenn drösluðust á svið og léku hundgömul lög sem allir eru orðnir leiðir á. Ég veit ekki hvort var verra í eyru landsmanna, blótsyrði Gísla Pálma eða gólið í Stuðmönnum. Hvað mig varðar þá er Gísli Pálmi allavega með búkinn í lagi sem má gefa gaum, annað en hægt er að segja um Jakob og félaga í Stuðmönnum, mute-a bara Gísla á meðan.

ágústa

Lífi Ágústu Evu var bjargað af saksóknara

Íslenska þjóðin stendur í þakkarskuld við Björn Þorvaldsson saksóknara fyrir að bjarga lífi Ágústu Evu leikkonu. Stór hurð í bílaþvottastöð Löðurs nánast klippti hana í tvennt um síðustu helgi. Ágústa náði að öskra á hjálp og var Björn staddur á staðnum og bjargaði leikkonunni á ögurstundu. Ég er honum þakklátur enda Ágústa í miklu uppáhaldi ekki bara sem leikkona og söngkona, heldur flott fyrirmynd, stuðbolti og sjarmatröll. Takk Björn þú ert hetja.

Nú er loksins komin skýringin á góðu gengi pírata í skoðunarkönnunum. Ísland er í fyrsta sæti hvað varðar kannabis reykingar á heimsvísu. Veit ekki alveg hvort við eigum að vera stolt af fyrsta sætinu hvað þetta varðar, en þetta er staðreynd. Við eigum kannski bara að lögleiða þetta þá verður þetta ekki eins spennandi, ég er ekki viss. En ég er viss um það að við eigum ekki að skella þeim sem þetta notar á sakaskrá eða eyða tíma dómskerfisins við að eltast við þetta.

Talandi um píratana, þá er það eins dæmi að ég tel, í íslenskri stjórnmálasögu að stjórnmálaflokkur geti verið á öðru kjörtímabilinu á þingi og er loksins að drattast til að birta stefnu sína í helstu málaflokkunum. Píratar kynntu sjávarútvegsstefnu sína í vikunni sem er meira en lítið sérstök. Stefnan felur í sér að einyrkjar og smærri sjávarútvegsfyrirtæki leggja upp laupana nái hún fram að ganga. Aflaheimildir seljist hæstbjóðenda. Þar að segja að þeir sem mest féð hafa á milli handanna geta keypt til sín allar heimildirnar. Ég er ekki frá því að LÍÚ hafi millifært á píratana um leið og þeir sáu stefnuna.

pirateeclipse

Píratar og stefnumál þeirra eru Árna hugleikin um þessar mundir

Mesta röfl vikunnar kemur frá félagi íslenskra bifreiðaeigenda vegna lokana í miðborginni á menningarnótt. FÍB segir að íbúar í miðborginni hafi verið í gíslingu með bíla sína. Þess má geta að þetta var tuttugasta menningarnóttin í borginni okkar og ef íbúar eru ekki ennþá búnir að ná lokunum á þessum degi, þá er tímabært að rífa um flyerinn sem kemur inn um bréfalúguna á hverju ári, flétta blöðum eða já kíkja á netið. Ég er viss um að íbúar út á landsbyggðinni eru með þetta á hreinu enda vel auglýst og minnsta málið að rúlla bílnum á föstudagskvöldi út fyrir lokunarsvæðið. FÍB ég hvet ykkur til að eyða tímanum ykkar í að hjakkast á olíufélögunum í að lækka verðin á eldsneyti í stað þess að röfla yfir fastri rútínu til 20 ára.

Skólarnir eru komnir af stað og lífið dottið í rútínu. Auglýsingar um skólavörur fóru í loftið fyrir löngu og minnti mann óneitanlega á að sumarið væri að líða frá okkur. Ein auglýsingaherferð stóð upp úr. A4 gubbuðu auglýsingum yfir okkur í sjónvarpi og ég verð satt best að segja að þetta er allra lélegasta auglýsingaherferð sem ég hef séð lengi. Fullorðið fólk sturtandi úr skólatöskum reynandi að ná til skólabarna.Þetta eru svo slæmar auglýsingar að ég er farinn að þrá að sjá pönkaraömmuna í Ora auglýsingunni sem vakti upp óhug hjá mér undir takföstum tónum sem ýttu undir einhverjar rangar tilfinningar sem hefur haldið mér frá Ora smáréttum.

Mikið er ég sammála Sigmundi Davíð forsætisráðherra að gamli bærinn líður fyrir byggingaæði í borginni. Gömul falleg hús sem hafa að geyma djúpstæða sögu í borginni og tala nú ekki um sögu arkitektúrs í Reykjavík. Á hverju götuhorni rísa gráir stórir kassar sem drottna yfir öllu og mörgum tilfellum eru ekki í takt við umhverfið. Dagur borgarstjóri og dvergarnir hans í meirihlutanum eru gjörsamlega með allt niður um sig fjárhags- og skipulagslega séð.

Að lokum verð ég að minnast á Sturlu sem íhugar að gefa kost á sér á Bessastaði. Já menn eru stórhuga, það verður ekki af honum Sturlu tekið að hann hefur oft hitt naglann á höfuðið í umræðunni. En hvort hann sé rétti maðurinn í verkið veit ég ekki. Sturla fékk ekki byr undir báða vængi í þingkosningum og því spyr maður sig hvort hann sjái virkilega tækifæri á að sigra sjálfar forsetakosningarnar. Eigum við ekki bara að kjósa Ólaf áfram, við höfum ekki efni á að hafa þrjá á launaskrá, tvo fyrrverandi og einn sitjandi forseta. Notum Ólaf bara áfram hann er í fantaformi sá gamli.

Góða helgi