Vandræði í Grindavík – Margir tæpir vegna meiðsla og tveir í banni
Grindvíkingar, sem verma annað sæti Pepsí-deildar karla í knattspyrnu, eiga í töluverðum meiðslavandræðum og svo gæti farið að tveir leikmanna liðsins yrðu ekki meira með í sumar.
Hákon Ívar Ólafsson meiddist á hné gegn Breiðabliki á dögunum og verður frá næstu þrjá mánuðina eftir því sem fotbolti.net greindi frá í gær. Þá greinir mbl.is frá því að Rodrigo Gomes, sem ekkert hefur leikið með liðinu á tímabilinu, gæti sömuleiðis verið frá í þrjá mánuði til viðbótar. Að auki er enn bið í að Juanma Ortiz nái sér af meiðslum.
Fyrir næsta leik gegn KA á sunnudag er enn óljóst hvort markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason verði búinn að ná sér eftir að hafa haltrað af velli gegn Blikum. Markvörðurinn Kristijan Jajalo er einnig tæpur og þá taka þeir Björn Berg Bryde og Sam Hewson út leikbann í leiknum.