Nýjast á Local Suðurnes

Sveitarfélögin á Suðurnesjum styrkja Grænlendinga vegna náttúruhamfara

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa ekki látið sitt eftir liggja í söfnuninni Vinátta í verki, en söfnunin var sett í gang í kjölfar náttúruhamfara á Grænlandi, þegar flóðbylgja gekk yfir þorpið Nuugaatsiaq þann 19. júní síðastliðinn. Flóðbylgjan kostaði fjögur mannslíf og olli gríðarlegu eignatjóni.

Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn standa að söfnuninni og var ákveðið ú upphafi hennar að biðla til allra sveitarfélaga landsins um að leggja henni lið.

Sveitarfélagið Garður, Reykjanesbær og Grindavíkurbær hafa þegar lagt söfnuninni lið, Grindavíkurbær lagði til 250.000 krónur og Reykjanesbær 200.000 krónur, ekki fengust upplýsingar um styrkupphæð Sveitarfélagsins Garðs fyrir birtingu fréttarinnar. Þá verður styrkbeiðni Vináttu í verki tekin fyrir á fundi bæjarráðs Sandgerðisbæjar í næstu viku, eftir því sem Suðurnes.net kemst næst. Ekki fengust upplýsingar frá Vogum um hvort veittur verði styrkur.

Á heimasíðu Vináttu í verki kemur fram að nú hafi safnast um 35 milljónir króna.

Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að hringja í síma 907 2003 og leggja þannig til 2.500 krónur eða leggja inn á reikning söfnunarinnar, 0334-26-056200 – Kennitala 450670-0499.