Nýjast á Local Suðurnes

Þróttur V. tapaði naumt gegn Stjörnunni – Víðir og Grindavík í 16 liða úrslitin

Þróttur Vogum tapaði með minnsta mun, 0-1, gegn Stjörnunni í Borgunarbikar karla í gær. Vogabúar leika í þriðju deildinni og eru 38 sætum neðar í deildarkeppninni en Stjörnumenn sem verma efsta sæti Pepsí-deildarinnar. Þróttarar eru þar með úr leik í keppninni, en Víðismenn og Grindvíkingar unnu sína leiki og tryggðu sér sæti  sér sæti í 16-liða úrslitunum.

Víðsmenn lögðu Árborg að velli með 1 marki gegn engu á Selfossi og skoraði Helgi Þór Jónsson mark Víðismanna í uppbótartíma.

Grindvíkingar tóku á móti Völsungi frá Húsavík á Grindavíkur velli og buðu upp á markaveislu, það voru þó aðeins tveir leikmenn Grindvíkinga sem komust á blað, en William Daniels skoraði fjögur mörk og Sam Hewson skoraði þrjú.

Efsta lið Pepsí-deildarinnar, Stjarnan, fékk verðuga keppni í Vogunum, en mikið rok var þegar leikurinn fór fram og var hann því ekki mikið fyrir augað. Um 220 manns mættu á völlinn og sáu Stjörnumenn skora sigurmarkið á 10. mínútu leiksins. Vogamenn áttu þó sín færi og voru óheppnir að jafna ekki leikinn.