Nýjast á Local Suðurnes

Slappir Njarðvíkingar lutu í gras gegn Ægi

Það voru slappir Njarðvíkingar sem tóku á móti liði Ægis frá Þorlákshöfn á Njarðtaksvellinum í kvöld, þrjú mörk gestana skildu liðin að í lokin og settu Njarðvíkinga í fallbaráttu þegar mótið er hálfnað.

Eins og oft áður í sumar byrjuðu Njarðvíkingar leikinn af krafti en gáfu eftir þegar líða fór á fyrri hálfleik og gáfu gestunum færi á sér sem þeir nýttu um miðjan hálfleikinn þegar William Daniels skoraði fyrsta markið. Hann var svo aftur á ferðinni undir lok hálfleiksins, 2-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var með svipuðu sniði og sá fyrri endaði, Ægismenn sóttu þar til undir lok leiksins að Njarðvíkingar tóku við sér og sóttu án afláts og uppskáru vítaspyrnu sem þeir misnotuðu. Það var svo Daniels sem bætti við sínu þriðja marki í uppbótartíma og þar við sat, 0-3 og Njarðvíkingar komnir í níunda sæti með 11 stig.

Næsti leikur liðsins er gegn Hetti þann 18. júlí og skiptir sá leikur gríðarlegu máli fyrir Njarðvíkinga þar sem deildin er mjög jöfn og stutt á milli botn- og toppbaráttu.