Nýjast á Local Suðurnes

Mikilvægir sigrar hjá Suðurnesjaliðunum í Inkasso-deildinni

Keflavík og Grindavík nældu sér í mikilvæg stig í Inkasso-deildinni í knattspyrnu, en 14. umferð deildarinnar var leikin um helgina. Grindvíkingar eru sem stendur í öðru sæti deildarinnar, með 28 stig, þremur stigum meira en grannarnir úr Keflavík.

Grindvíkingar hafa skorað mest allra liða í deildinni í ár, eða 36 mörk, þeir héldu uppteknum hætti í gær gegn Leikni F. og skoruðu fjögur mörk gegn einu. Gunnar Þorsteinsson skoraði fyrsta markið á 24. mínútu og William Daniels bætti öðru við á þeirri 31. Gunnar Þorsteinsson var svo aftur á ferðinni á 69. mínútu. Magnús Björgvinsson bætti svo fjórða markinu við undir lok leiksins, en í millitíðinni höfðu gestirnir náð að lauma inn einu marki.

Magnús Þórir Matthíasson kom Keflvíkingum í forystu rétt fyrir leikhlé gegn Fjarðarbyggð. Jóhann Birnir Guðmundsson tvöfaldaði forystuna á 61. mínútu. Gestirnir náðu að minnka muninn í uppbótartíma, en Keflvíkingar náðu að landa sigri og blanda sér þar með í toppbaráttuna af fullri alvöru.