Nýjast á Local Suðurnes

Lýðheilsuvísir: Suðurnesjamenn hamingjusamastir en andlega heilsan er slæm

Embætti landlæknis hefur sett saman lýðheilsuvísa fyrir hvert heilbrigðisumdæmi á Íslandi. Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra. Lýðheilsuvísarnir voru kynntir í Safnahúsinu við Hverfisgötu fyrr í dag og birtast þeir nú einnig á vef embættisins.

Á vef landlæknisembættisins kemur fram að svæðisbundinn munur á heilsu, líðan og áhrifaþáttum þeirra er þekktur um allan heim. Samkvæmt gögnunum eru dæmi um lýðheilsuvísa þar sem tölur fyrir Suðurnes eru frábrugðnar tölum fyrir landið í heild, til dæmis er hærra hlutfall fullorðinna með hæsta gildi á hamingjukvarða og sé miðað við landið all er hér lægri tíðni ölvunardrykkju fullorðinna.

Þó eru ekki öll frávikin af hinu góða, á Suðurnesjum meta hlutfallslega fleiri fullorðnir andlega heilsu sína slæma auk þess sem hlutfallslega fleiri fullorðnir reykja daglega en í öðrum fjórðungum.

Lýðheilsuvísarnir verða kynntir frekar á vinnustofum sem Embætti landlæknis mun halda í öllum landsfjórðungum. Þar verða einnig kynntar hugmyndir um það hvernig nýta megi lýðheilsuvísana til að vinna að markvissu lýðheilsustarfi.