Nýjast á Local Suðurnes

Átta vildu 66°Norðurrými á KEF

Átta aðilar sóttu útboðsgögn í samkeppni um rekstur á verslun sem selur útivistar- og lífsstílsfatnað á Keflavíkurflugvelli. Tveir aðilar uppfylltu hæfiskröfur útboðsins og var boðið að skila inn tilboðum og taka þátt í viðræðuferlinu.

Báðir aðilar kláruðu allt ferlið og skiluðu inn tilboðum en á endanum var það 66°Norður sem reyndist hlutskarpara. Við mat á tilboðum var horft til fjárhagslegs hluta sem og tæknilegrar útfærslu. Matsferlið fól í sér að meta gæði tilboðanna en við það er m.a. litið til vöruframboðs, verðlagningar og gæða, þjónustu við viðskiptavini, hönnunar og útlits verslunar, markaðssetningar sem og sjálfbærni.

Útboð á þjónustu á Keflavíkurflugvelli er liður Isavia í því að gera rekstrarumhverfið samkeppnishæft. Félagið býður reglulega út þjónustu og fylgir við það lögum og reglum um opinber innkaup og reglugerð nr. 950/2017 um sérleyfissamninga um verk og þjónustu. Þá viðhefur félagið jafnræði, gagnsæi og hagkvæmni og eru öll útboð auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu, segir í tilkynningu frá Isavia.

Núverandi verslun 66°Norður er staðsett hægra megin áður en haldið er út landganginn og verður opin þar vel fram á haust. Samkvæmt áætlunum verður svo ný og endurbætt verslun opnuð á sama stað í aðdraganda jóla, segir einnig í tilkynningunni.