Húsasali kærður til lögreglu

Maður sem taldi sig vera að kaupa innflutt hús frá Austur-Evrópu af fyrirtækinu Smart modular Ísland, sem staðsett er á Ásbrú í Reykjanesbæ hefur kært forsvarsmann fyrirtækisins til lögreglu vegna meintra svika. Maðurinn hefur að sögn reitt fram sextán milljónir króna fyrir vörur sem aldrei hafa borist.
Frá þessu hefur verið greint í hinum ýmsu fjölmiðlum undanfarna daga, meðal annars á vef DV, RÚV og héraðsmiðilinum Trölla. Þá hefur verið greint frá því að Neytendasamtökunum hafi borist ábendingar um milljóna svikastarfsemi, sem að sögn kæranda getur numið allt að 200 milljónum króna, miðað við ábendingar sem honum hefur borist frá fjölmörgum aðilum.
Maðurinn hvetur fólk sem telur sig hafa verið svikið að hafa samband við lögreglu og bendir á að viðkomandi aðilar selji vörur undir ýmsum fyrirtækjanöfnum.