Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjaliðunum spáð slæmu gengi í Dominos-deildinni

Vestfirðingarnir hjá Fúsíjama TV halda úti skemmtilegri vefsíðu um körfuknattleik, en höfuðstöðvar þeirra félaga eru staðsettar í vöggu vestrfirsks körfuknattleiks, Hnífsdal. Þeir félagar hafa skellt í spá um lokastöðu Dominos-deildarinnar í körfuknattleik og er óhætt að segja að Hnífsdælingarnir spá Suðurnesjaliðunum ekki alltof góðu gengi á komandi tímabili.

Grindvíkingum er spáð 9. sæti deildarinnar af Fúsíjama TV – En fyrir Vestan hafa menn áhyggjur af því hve liðið hefur náð í fáa leikmenn fyrir tímabilið, en í rökstuðningi segir meðal annars:

Nú er spurning hvort Grindvíkingar fari ekki að snúa sér að aðeins minni nöfnum þannig að ef þið sjáið einhverja af bekkjarvermum annara liða frá því í fyrra á glænýjum bílum þá vitið þið hvaða lið þeir voru að semja við.

Áttunda sætið og þar með sæti í úrslitakeppninni mun verða hlutskipti Njarðvíkinga, gangi spáin eftir. Fúsíjama-liðar telja að nóg verði að gera hjá sjúkraþjálfurum liðsins í vetur, ef eitthvað er að marka rökstuðninginn sem fylgir spánni.

Til að gulltryggja að sjúkraþjálfarar liðsins hafi nóg að gera þá hefur liðið einnig samið við Jón Sverrisson sem hefur spilað samtals 2 leiki síðustu tvö tímabil.

Keflvíkingum er spáð bestu gengi Suðurnesjaliðanna, eða 7. sætinu og það þrátt fyrir að þeir hafi aðeins fengið einn leikmann til sín, enn sem komið er, auk þess sem aðalþjálfari liðsins er í veikindaleyfi.

Slæmu fréttirnar eru að óvíst er hvort Sigurður Ingimundarson, sigursælasti þjálfari Íslandssögunar, verði á bekknum í vetur vegna heilsufarsástæðna. Í stað hans hefur Hjörtur Harðarson verið að stýra æfingum og mun væntanlega stýra liðinu í vetur.

Spá þeirra Fúsíjama-manna og kvenna (væntanlega) má sjá í heild sinni hér, en gangi spáin eftir verða það leikmenn Stjörnunnar í Garðabæ sem koma til með að hampa titlinum.