Nýjast á Local Suðurnes

Allt hreint mun sjá um hreingerningar í grunnskólum Reykjanesbæjar

Gengið hefur verið til samninga við Allt hreint ræstingar ehf. á ræstingum í grunnskólum Reykjanesbæjar og voru samningar undirritaðir í dag. Samningur er gerður til þriggja ára með heimild til framlengingar tvisvar sinnum í eitt ár í senn.

Ríkiskaup, fyrir hönd Reykjanesbæjar, óskaði eftir tilboðum í ræstingarnar sl. vor og bárust tvö gildandi tilboð, frá Allt hreint ræstingum ehf. og ISS ehf. Alls fimm aðilar keyptu útboðsgögn en sú staðreynd að mikil spenna er á markaði og erfitt að fá fólk til starfa gæti hafa haft áhrif á fjölda tilboða. Einnig var gerð krafa í útboðslýsingu um að fyrirtæki sem gengið yrði til samninga við væri með Svansvottun.

Tilboðin frá Allt hreint og ISS voru nánast samhljóða, en það var ekki nema 0,97% á milli tilboða í heildina. Ef litið er framhjá sumarþrifum sem voru valkvæð í útboðinu, þá var munurinn 1,1%.

Myndin er frá undirritun samnings; Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Halldór G. Guðmundsson hjá Allt hreint ehf. og Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs.