Framkvæmdir við hringtorg á Reykjanesbraut á áætlun
Framkvæmdir við gerð hringtorgs við Stekk á Reykjanesbraut ganga vel og eru á áætlun, að sögn Guðlaugs Helga Sigurjónssonar sviðsstjóra Umhverfissviðs Reykjanesbæjar. Áætluð verklok eru í lok nóvember, að því gefnu að ekki verði tafir vegna veðurs.
Umferð um svæðið hefur að sögn Guðlaugs gengið vel og lítið verið um tafir, þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að loka fyrir umferð um Stekk, en það var talið varhugavert að hafa gatnamótin opin á meðan á framkvæmdum stendur.
Gert er ráð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar í þessari hönnun og því verður hringtorgið þó nokkuð stærra en gengur og gerist en auk þess að fá hringtorg á þessum gatnamótum mun vinstri beygja frá Hafnarvegi verða bönnuð og mun því öll umferð sem ætlar sér til norðurs frá Hafnarvegi fara um þetta nýja hringtorg.