Fjöldi athugasemda vegna starfsleyfis Thorsil – Margar samhljóða
Hátt á þriðja tug athugasemda hafa borist Umhverfisstofnun vegna starfsleyfis Thorsil í Helguvík, en umsagnarfrestur rann út í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun gætu fleiri athugasemdir borist með pósti á næstu dögum.
Frá þessu er greint á vef RÚV, en þar er haft eftir Aðalbjargu Birnu Guttormsdóttur á sviði samþættingar hjá Umhverfisstofnun að flestar athugasemdirnar komi frá íbúum í nágrenni Helguvíkur og að nokkuð margar séu samhljóða. Hún segir að athugasemdum verði svarað efnislega. Aðalbjörg Birna segir gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun taki ákvörðun í lok janúar.
Þá var greint frá því í gær að frestur Thorsil til greiðslu gatnargerðargjalda til Reykjaneshafnar vegna verksmiðju fyrirtækisins sem áætlað er að reisa í Helguvík rann út þann 30. september síðastliðinn og hefur greiðslan ekki enn verið innt af hendi. Að sögn Halldórs Karls verður greiðslan ekki innt af hendi fyrr en starfsleyfi fyrirtækisins er í höfn, samkvæmt greiðslusamkomulagi sem er í gildi milli aðila.