Nýjast á Local Suðurnes

Washington Post dásamar Skessuna – Stopover farþegar mikilvægir fyrir Suðurnesin

Greinarhöfundur The Washington Post, Mary Winston Nicklin,  sem nýtti sér svokallað Stopovertilboð Icelandair í sumar fer fögrum orðum um Suðurnesjasvæðið og þá sérstaklega Bláa lónið og Skessuhelli sem hún heimsótti tvisvar á ferð sinni um landið. Þá gerir hún gestrisni hótelstarfsmanna á svæðinu að umtalsefni en annari eins þjónustulund hefur hún vart kynnst á ferðum sínum um heiminn.

Icelandair flytur um 3 milljónir farþega í ár og gert er ráð fyrir að um 10-15% þeirra nýti sér Stopovertilboð flugfélagsins. Steinþór Jónsson hótelstjóri á Hótel Keflavík hefur orðið var við Stopover farþega og lítur á þá sem mikilvægan markhóp: “Þessir gestir stoppa stutt og vilja því nýta það sem næst er flugvellinum. Ég tel að hér sé um að ræða einstakt tækifæri fyrir þjónustuaðila á svæðinu til að bjóða uppá sérsniðna þjónustu og verð sem hentar þessum gestum sérstaklega.” Sagði Steinþór í spjalli við Local Suðurnes.

Steinþór segir að í þessum hópi farþega felist mikil tækifæri: “Við höfum vissulega orðið vör við þessa gesti og ég veit að margir þeirra hafa þegar skoðað það sem við teljum markvert hér hjá okkur, en við getum gert margfalt betur með því að einbeita okkur sérstaklega að þessum hóp og finna samstarfsgrundvöll innan svæðisins. Þannig gætum við aukið tekjur og myndað snjóbolta áhrif samfélaginu okkar til framdráttar.”