Bjargaði lífi fugla með því að aka út af
Bifreið hafnaði utan vegar á Garðvegi á Suðurnesjum þegar ökumaður reyndi að beygja framhjá fuglum á akbrautinni. Hann og farþegi í bílnum sluppu ómeiddir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, en óhöppin urðu fleirri því annað umferðaróhapp varð þegar karlmaður sem var á mótorkrosshjóli sínu á Sólbrekkubraut fékk hjólið ofan á sig í einu stökkinu og var hann fluttur á heilbrigðisstofnun Suðurnesja með sjúkrabifreið, að því er segir í tilkynningunni.
Þá varð umferðarslys á Njarðarbraut við Grænásveg þegar bifreið var ekið aftan á aðra kyrrstæða. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á HSS.
Árekstur varð einnig þegar vörubifreið og fólksbifreið skullu saman á gatnamótum í Njarðvík. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar fann fyrir eymslum eftir áreksturinn og voru báðar bifreiðirnar óökufærar.