Nýjast á Local Suðurnes

Nýtt flugskýli Icelandair skapar á annað hundrað störf

Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýju flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða viðbyggingu við hlið núverandi flugskýlis, sem byggt var 1992. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að taka skýlið í notkun síðla árs 2017. Það mun skapa á annað hundrað störf og hýsa m.a. lager, verkstæði, skrifstofur og mötuneyti.

Byggingin verður um 27 metra hátt stálgrindarhús á steyptum undirstöðum og klædd að utan með einangruðum stálsamlokueiningum. Grunnflötur byggingarinnar er um 10.500 fermetrar og heildarflatarmál hennar um 13.600 fermetrar. Á suðurhlið skýlisins sem snýr að nýju steyptu flughlaði verður flugvélahurð sem samanstendur af 8 flekum á brautum. Hurðin er rúmlega 18 metra há og opnast mest um 65 metra.

Við hönnun flugskýlisins hefur verið horft til umhverfisþátta í efnisvali auk þess sem gott vinnuumhverfi starfsfólks hefur verið haft að leiðarljósi. Má þar til dæmis nefna val á steinull til einangrunar, innlenda framleiðslu samlokueininga, notkun vatnshitapanela til upphitunar og LED lampa í lýsingu. THG arkitektar og verkfræðistofan Ferill hafa hannað bygginguna.

flugsk2

Fyrsta skóflustungan var tekin í gær

Í Nýju byggingunni er unnt að koma fyrir tveimur flugvélum af gerðinni Boeing 757, einni Boeing 757 og einni Boeing 767 hlið við hlið ásamt stærri flugvélum. Einnig mun verða þar rými fyrir þrjár 737MAX vélar á sama tíma.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að ætlunin sé að nota viðbótina fyrst og fremst til þess að sinna stærri viðhaldsverkefnum ásamt ýmsum breytingum og uppfærslum á flugvélum. Þá losnar rými í núverandi flugskýli til þess að sinna léttara viðhaldi og tilfallandi viðgerðum og eftirliti.

Flugskýlið kemur til með að tryggja Icelandair þann sveigjanleika sem því fylgir að sinna eigin viðhaldi og er mikilvægur þáttur í að tryggja innviði félagsins fyrir áframhaldandi vöxt, segir ennfremur í tilkynningunni.