Nýjast á Local Suðurnes

Laga Miðgarð í Grindavík fyrir rúman milljarð – Nota 500 tonn af stáli í uppbygginguna

Unnið var að uppskipun 500 tonna af stáli sem fara í uppbyggingu stálþils við Miðgarð í Grindavík. Stálinu verður komið fyrir á svæði hafnarinnar við Eyjabakka þar til sjálf uppbyggingin hefst. Einnig er í skipinu rúmlega 300 tonn af stáli sem fer í uppbyggingu stálþils í höfninni á Rifi á Snæfellsnesi en það er víða þörf á endurbótum á hafnarmannvirkjum á landinu.

Framkvæmdin er þjóðhagslega mjög mikilvæg, en Grindavík er þriðja stærsta sjávarútvegshöfn landsins og þar koma á land árlega afurðir sem skapa um 20 milljarða í útflutningstekjur. Áætlaður kostnaður við enduruppbyggingu Miðgarðs er um 1,3 milljarður, eða um 6,5% af árlegum útflutningsverðmætum hafnarinnar.

Uppbygging Miðgarðs hefur verið í bígerð undanfarin ár, en Miðgarður er um 220 metra langur stálþilskantur sem var byggður 1964-1967. Samkvæmt tillögu Siglingasviðs Vegagerðarinnar til viðbótar við endurnýjun stálþilssins verður dýpið aukið töluvert. Farið verður niður í 8 metrar meðfram öllum kantinum sem er gríðarleg framför frá því dýpi sem nú er. Stór þáttur í endurbótunum er dýpkunin því afkastmestu skipin sem koma til hafnar í Grindavík geta ekki legið þar sökum of mikilla djúpristu.